Slökkviliðsmenn álykta um brottför Varnarliðsins

Almennur fundur starfsmanna slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli þann 17. mars ályktar vegna þeirra frétta að varnarliðið sé að hverfa á braut og að íslenska ríkið sé hugsanlega að taka yfir rekstur Keflavíkurflugvallar, þar með talið slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli, eftirfarandi:

„Slökkviliði Keflavíkurflugvallar, sem er atvinnumanna slökkvilið, hefur verið stjórnað af Íslendingum síðan 1963 við mjög góðan orðstír, eins og þau fjölmörgu verðlaun og viðurkenningar sem það hefur hlotið bera vitni um. Það er eina slökkviliðið á Íslandi sem hefur hlotið alþjóðlega vottun, nú síðast í vetur. Innan liðsins býr því gríðarleg reynsla, mikill mannauður og menntun. Á þessum tímamótum er mjög mikilvægt að þessi þekking og reynsla fari ekki forgörðum. Hjá slökkviliðinu starfa í dag um 70 manns í húsbruna-, forvarna-, eiturefna- og flugvallardeild Þar að auki sá slökkviliðið til 30 ára um allar viðgerðir á tækjum og tólum liðsins, allan snjómokstur og hálkuvarnir á flugbrautum, flugvallar öryggi við frábæran orðstír.

Að okkar áliti kallar brottför varnarliðsins á breytingar og meiriháttar uppstokkun á rekstri og stjórnsýslu Keflavíkurflugvallar, svo og öllum flugrekstrar- og flugöryggismálum Íslands, þar með talið innanlandsflug, til að ná fram samlegðaráhrifum við rekstur eins flugvallar í stað tveggja. Að því máli verða því að koma þingmenn, sveitarstjórnarmenn og fagaðilar.

Það er því skýr krafa starfsmanna Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, að haft verði samráð við þá vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru. Einnig að hagsmunir heildarinnar verði hafðir að leiðarljósi," að því er segir í ályktun slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli.

mbl.is