Stjórn SUS ályktar um varnarmál

Ákvörðun stjórnvalda USA um að fjarlægja herþoturnar hefur engin grundvallaráhrif, að því er segir í ályktun frá stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna.

„Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skorar á íslensk stjórnvöld að hvika hvergi frá þeirri stefnu sinni að tryggja varnir Íslands, þrátt fyrir einhliða breytingar af hálfu Bandaríkjastjórnar á varnarsamstarfi ríkjanna. Sú ákvörðun stjórnvalda í Washington að fjarlægja fjórar herþotur af Miðnesheiði hefur að mati SUS engin grundvallaráhrif á öryggishagsmuni Íslands.

SUS treystir því að viðræður Íslands og Bandaríkjanna um breytingar á farsælum varnarsamningi ríkjanna frá 1951 snúist áfram um að tryggja raunverulegar varnir landsins í ljósi breyttra aðstæðna á alþjóðavettvangi. Íslendingar hljóta fyrst og fremst að treysta á raunverulegar og trúverðugar varnir, þó svo að sýnilegar táknrænar varnir hafi vissulega ákveðið gildi. Skýr og klár skuldbinding af hálfu Bandaríkjanna um að verja Ísland á hættutímum er og verður áfram besta tryggingin fyrir öryggi landsins.

Um áratugaskeið stafaði Íslendingum veruleg ógn af útþenslustefnu Sovétríkjanna og miklum hernaðarmætti þeirra á norðurslóð. Helsta vörn Íslands var aðildin að NATO. Í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 fólst enn frekari vernd gegn þessari vá. Ógnin af hernaðar umsvifum Sovétríkjanna var sýnileg, raunveruleg og sífellt aðsteðjandi. Á þessum tíma gegndu orrustuþotur og margvíslegur annar viðbúnaður varnarliðsins lykilhlutverki fyrir varnir Íslands. Það er fagnaðarefni að Íslendingum stafar ekki lengur ógn af Sovétríkjunum, þeim ríkjum sem þau mynduðu eða öðrum þjóðum í okkar heimshluta.

Aldrei má þó horfa framhjá því að mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að standa vörð um öryggi og frelsi þeirra sem dvelja á Íslandi. Við Íslendingar höfum sem betur fer aldrei þurft að starfrækja her og vonandi mun aldrei koma til þess óyndisúrræðis. Það þýðir aftur á móti að við þurfum að gera annars konar ráðstafanir til að tryggja lágmarksvarnir landsins. Að mati ungra sjálfstæðismanna verður það best gert með áframhaldandi veru Íslands í NATO, ásamt nánu öryggis- og varnarsamstarfi við Bandaríkin og aðrar nágrannaþjóðir sem tekur mið af þeim hættum sem helst gætu steðjað að Íslendingum nú og í náinni framtíð," að því er segir í ályktun SUS.

mbl.is