Bæjarráð Akureyri bendir í bókun sem samþykkt var á fundi ráðsins á mikilvægi þess að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri. Á fundinum lagði bæjarstjóri, Kristján þór Júlíusson fram bókun í framhaldi af þeirri stöðu sem upp er komin vegna ákvörðunar Bandaríkjastjórnar um brottflutning á björgunarþyrlum varnarliðsins af Keflavíkurflugvelli.
Bæjarráð bendir á mikilvægi þess að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri. "Með brotthvarfi eldsneytisflugvéla af Keflavíkurflugvelli er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu," segir í bókun bæjarráðs og ennfremur að á Akureyri sé nú þegar miðstöð sjúkraflugs á Íslandi, hátækisjúkrahús, sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs og sólarhringsvakt á flugvelli. "Þyrla staðsett á Akureyri yki öryggi vegna sjúkraflugsins enn frekar. Í erfiðum veðrum þyrfti ekki að fljúga yfir hálendið til að sinna björgunarmálum norður og austur af landinu.Tíminn er dýrmætur ef hættu ber að höndum og af framansögðu má ljóst vera að bjargir á norðaustursvæðinu yrðu skilvirkari ef því svæði væri sinnt frá Akureyri."
Bæjarráð óskar því eftir eftir viðræðum við ríkisstjórn Íslands um uppbyggingu björgunarstarfs Íslendinga í kjölfar brottflutnings þyrlusveitar varnarliðsins.