Forsætisráðherra segir að gengislækkun krónunnar hafi verið tímabær

Halldór Ásgrímsson
Halldór Ásgrímsson mbl.is/ÞÖK

Þrátt fyrir nokkurt umrót á íslenskum fjármálamarkaði að undanförnu er staða íslensks efnahagslífs mjög góð, að sögn Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, og er sú gengislækkun sem orðið hefur á krónunni tímabær. Halldór segir að búast megi við einhverjum verðbólguáhrifum, en þá beri að hafa í huga að sterk staða krónunnar virðist ekki hafa komið fram nema að litlu leyti í verðlækkunum.

„Ég geri ráð fyrir því að íbúðaverð við þessar aðstæður muni ekki hækka, fremur lækka eitthvað, sem hefur þá jákvæð áhrif á vísitöluna og vegur þannig á móti hugsanlegum áhrifum gengislækkunar.“ En það ber að taka alvarlega umræðuna sem átt hefur sér stað um íslenskt efnahagslíf og íslensku bankana, að mati Halldórs. „Þetta verður til þess að það þrengir að bönkunum. Fjármagnið sem þeir hafa til ráðstöfunar verður dýrara og þeir hafa úr minna fjármagni að spila. Ég lít svo á að þetta verði til þess að það dragi úr viðskiptahallanum fyrr en gert hafði verið ráð fyrir, sem er auðvitað jákvætt. Og þess vegna muni aðlögunin, sem við gerðum ráð fyrir, eiga sér stað mun fyrr.“

Gagnrýnir Bandaríkjamenn Halldór gagnrýnir Bandaríkjamenn harðlega fyrir einhliða ákvörðun um að kalla varnarliðið heim og segir það mikil vonbrigði sem skapað hafi vantraust og næstu vikur muni leiða í ljós hvort traust geti orðið á nýjan leik. Hann segir að viðræðufundur verði haldinn á föstudag og þar muni Bandaríkjamenn leggja fram sínar hugmyndir um hvað eigi að koma í staðinn.

„Þeir munu væntanlega leggja fram sínar hugmyndir um það að hvaða leyti þeirra skuldbindingar muni vera nægilegar gagnvart Íslandi og Atlantshafsbandalaginu.“

Í máli Halldórs kemur fram að vinna þurfi hratt að úrlausn í björgunarmálum, því að útlit sé fyrir að þotur og þyrlur varnarliðsins verði kallaðar héðan á næstu vikum.

„Við höfðum vænst þess að geta leyst björgunarmálin til lengri tíma litið, en nú þurfum við líklega að fara út í skammtímaráðstafanir. Því að það má aldrei verða að það skapist óöryggi á hafinu í kringum okkur.“

Sjá ítarlegt viðtal við Halldór Ásgrímsson í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is