George W. Bush svarar Halldóri Ásgrímssyni

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carol Van Voorst, afhenti Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra bréf frá Bandaríkjaforseta, George W. Bush, seint í fyrradag, en í bréfinu ítrekar Bush varnarskuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart Íslandi, að sögn Halldórs. Bréf Bush er svarbréf við erindi Halldórs frá því fyrr í mánuðinum, þar sem Halldór óskar eftir svörum um hvernig bandarísk stjórnvöld ætli að standa við samning um varnir Íslands, nú þegar ákveðið hafi verið að kalla orrustuþotur varnarliðsins og þyrlusveit frá landinu.

"Bush segist hafa gefið þau fyrirmæli til utanríkisráðuneytisins og varnarmálaráðuneytisins að koma til viðræðna við okkur og ræða með hvaða hætti Bandaríkin væru tilbúin til að sinna þessum skuldbindingum. Hann segist í bréfinu vænta þess að með því muni nýr kafli hefjast í þessum samskiptum sem muni tryggja öryggi bæði Bandaríkjanna og Íslands. Í bréfinu kemur líka fram að sendinefnd muni koma hingað fljótlega til að fjalla um þessi mál," segir Halldór, en ráðgert er að sendinefndin komi til landsina á morgun, fimmtudag. "Hvað hún hefur í farteskinu vitum við ekki, en við munum að sjálfsögðu hlusta með athygli á það og fara yfir það sem þeir hafa að segja."

Samráð við NATO

Spurður hvort íslensk stjórnvöld séu þar með bara að bíða eftir því hvað Bandaríkjamenn hafi til málanna að leggja segir Halldór: "Við höfum ákveðnar hugmyndir um það hvernig hægt er að koma þessu fyrir en við viljum fyrst vita hvað þeir hafa að segja. Þeir hafa aldrei svarað okkur um það hvað þeir telji að geti komið í staðinn fyrir þær varnir sem eru hér nú. Við höfum talið þær varnir nauðsynlegar, þeir hafa ekki verið sammála því, við höfum viljað að þeir útskýri það, en það hafa þeir ekki gert. Það er hins vegar staðreynd að þeir hafa ákveðið að fara með herþoturnar og þyrlurnar og talað um að tryggja aðrar sýnilegar varnir, en ég verð að segja, eins og er, að ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn um framhaldið." Inntur eftir því hvað hann eigi við með því útskýrir hann, að hann sé ekkert sérstaklega bjartsýnn um niðurstöðu alveg á næstunni. "En þegar það er búið þurfum við að meta okkar stöðu og hafa um það samráð við Atlantshafsbandalagið. Framkvæmdastjóri þess hefur sagt mér að hann sé tilbúinn að koma fljótlega til Íslands til viðræðna um þau mál."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: