Fjármálaráðuneytið áætlar að þjóðartekjur dragist saman um 0,5 til 1 milljarð króna árið 2006 og um 2 til 3 milljarða króna árið 2007 vegna brotthvarfs varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli. Vöxtur landsframleiðslu dregst lítillega saman eða um 0,2% þegar áhrifin eru að fullu komin fram árið 2007. Þá dregst viðskiptajöfnuður saman um 0,5% af landsframleiðslu árið 2007 eða um 6 milljarða króna.
Ráðuneytið áætlar að tekjuafgangur ríkissjóðs lækki um 1,5 milljarð króna í ár og um allt að 4 milljarða króna á næsta ári, en áhrifin stafi að mestu af auknum ríkisútgjalda til verkefna sem Íslendingar taka við af varnarliðinu.
Fjármálaráðuneytið segir, að mikilvægt sé að hafa í huga að á undanförnum misserum hafi verið mikil vinnuaflseftirspurn í landinu sem að hluta til hafi verið mætt með innflutningi erlends vinnuafls. Ljóst sé að fækkun starfa á Keflavíkurflugvelli muni losa um vinnuafl með þeim afleiðingum að þörfin fyrir erlent vinnuafl verði ekki til staðar í sama mæli og áður. Því muni draga úr greiðslu launa til útlanda en það hafi jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Erfitt sé að meta slík áhrif nú en þó má ætla að þau gætu bætt viðskiptajöfnuðinn um allt að 0,2% af landsframleiðslu.
Í útreikningum fjármálaráðuneytisins er ekki lagt mat á óbein áhrif brotthvarfs varnarliðsmanna og fjölskyldna þeirra á eftirspurn eftir vöru og þjónustu á Suðurnesjum eða fyrir landið í heild. Reikna megi með að það hafi einhver neikvæð áhrif fyrst um sinn, en það ráðist einnig af viðbrögðum heimamanna. Í þessu sambandi megi nefna að reynsla Bandaríkjamanna af lokun herstöðva í eigin landi sé sú, að við það opnast mörg tækifæri til atvinnusköpunar.