Íslendingar og Bandaríkjamenn munu funda um varnarmál í utanríkisráðuneytinu

Varnarviðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna munu hefjast á morgun klukkan tvö í utanríkisráðuneytinu samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu. Síðasti fundur um varnarmálin milli Bandaríkjanna og Íslands átti sér stað í utanríkisráðuneytinu þann 31. mars síðastliðinn en þá kom hingað til lands 26 manna sendinefnd.

Viðræðunefnd Íslands verður hinsvegar sú sama og á fundinum í mars og fer Albert Jónsson sendiherra fyrir henni. Ekki liggur fyrir hverjir verða í sendinefnd Bandaríkjamanna en hún mun þó verða fámennari en sú sem kom hingað í mars.

Fram kom eftir fundinn í mars, að Bandaríkin væru að vinna að vinna að áætlun um varnir Íslands í samræmi við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951. Í þeirri vinnu yrði m.a. metin varnarþörf Íslendinga eftir að F-15 orrustuþoturnar verða farnar. Þær verða farnar í síðasta lagi í lok september. Búast má við að bandaríska sendinefndin kynni áætlunina eða upplýsi íslensku sendinefndina nánar um hana á fundinum á morgun.

Fundurinn á morgun verður þó ekki sá eini í þessari viðræðulotu því ákveðið hefur verið að funda einnig á fimmtudag.

mbl.is