Náttúruverndarsamtök í Bandaríkjunum hafa bundist samtökum um að þrýsta á bandarísk stjórnvöld að beita sér með öflugri hætti gegn hvalveiðum fyrir ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem haldinn verður í júní. Einnig verður auglýsingaherferð gegn hvalveiðum í sjónvarpi í Bandaríkjunum, að því er kemur fram í tilkynningu.
Í bréfi, sem náttúruverndarsamtökin hafa sent George W. Bush, Bandaríkjaforseta, er hvatt til þess að Bandaríkin beiti sér gegn tilraunum Japana til að kaupa atkvæði innan hvalveiðiráðsins. Þá eru Bandaríkin hvött til að beita sér gegn því að Japanar fái fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrr en þeir virði alþjóðalög um verndun hvala.
Í síðustu viku kom fram, að Bandaríkin hafa beðið Ísraelsmenn að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið og leggja þar andstæðingum hvalveiða lið.