Forsvarsmenn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands segja að stjórnvöld hafi ekki staðið við gefin loforð um að fara út fyrir svæði hvalaskoðunarfyrirtækja til veiða á hrefnum í vísindaskyni undanfarin ár.
„Við upphaf þessara vísindaveiða var farið ofan í þessi mál með sjávarútvegsráðherra og ráðamönnum. Þá gáfum við upp á hvaða svæðum hvalaskoðunarfyrirtækin eru að vinna og fengum mjög skýrt loforð um að það yrði aldrei farið með veiðar inn á þau svæði,“ segir Guðmundur Gestsson, varaformaður samtakanna, á blaðamannafundi í dag.
Guðmundur sagði að nýjar tölur frá Hafrannsóknarstofnuninni yfir veidda hvali frá árinu 2003 sýni að loforðið hafi verið þverbrotið og aldrei hafi fleiri dýr verið veidd inni á hvalaskoðunarsvæðum en á síðasta ári.
Fram kom á fundinum að minna hafi verið um það í fyrra en áður að spakir hvalir kæmu upp að hvalaskoðunarskipunum og það væri afleiðing hvalveiðanna.
Rúmlega 81 þúsund gestir fóru í hvalaskoðunarferðir á síðasta ári yfir allt landið og stendur fjöldinn í stað frá fyrra ári. Er þetta í fyrsta skipti í tíu ár, eða frá upphafi hvalaskoðunarferða á Íslandi, sem gestum fjölgar ekki, en t.a.m. voru ríflega 45 þúsund gestir árið 2000.