Ráðgjafarstofa sem stofnuð var til að auðvelda íslenskum starfsmönnum varnarliðsins að fá störf eftir brotthvarf varnarliðsins hefur upplýsingar um að 70 starfsmenn hafi þegar fengið störf annars staðar. Þá hefur um 140 starfsmönnum auk þessa verið tryggð áfram störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar skv. nýjum lögum. Hafa því talsvert á þriðja hundrað starfsmanna á varnarsvæðinu fengið störf svo vitað sé, en alls fengu um 600 varnarliðsstarfsmenn uppsagnarbréf eftir að ákvörðun var tilkynnt um brotthvarf varnarliðsins.
Þessar upplýsingar komu fram í máli Helgu Jóhönnu Oddsdóttur, starfsmanns ráðgjafarstofunnar, á fundi sem Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hélt með starfsfólki varnarliðsins í gær.
Staðan er sú að okkar mati að þetta gangi ágætlega," sagði Helga Jóhanna. "Boltinn er farinn að rúlla."
Hún greindi einnig frá því að þegar hefðu 145 manns skráð sig á og sótt námskeið á vegum ráðgjafarstofunnar og verða þau áfram í boði út sumarið. Helga sagði að straumur þeirra sem vildu nýta sér þjónustu ráðgjafarstofunnar ykist stöðugt en stofan var opnuð 27. mars.
"Hátt í 50 fyrirtæki hafa óskað eftir aðstoð okkar við að manna störf. Það gengur mishratt fyrir sig en boltinn er þó farinn að rúlla," sagði hún.
"Markmiðið með starfsemi okkar er að tryggja fólki störf við hæfi og að hafa milligöngu um störf og bjóða námskeið fyrir fólk í atvinnuleit. Við leggjum ríka áherslu á að fólk geti eftir fremsta megni fengið störf við hæfi í heimabyggð." | Miðopna