Bandaríkjamenn töldu sig ekki lengur skuldbundna Íslendingum eftir að Davíð Oddsson hvarf úr stjórnmálum í október í fyrra. Þeir töldu sig ekki eiga Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra, eða Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, skuld að gjalda og því kölluðu þeir orustuþoturnar og herlið sitt heim í mars í vetur, að því er fram kemur í grein eftir Val Ingimundarson, sagnfræðing, í vorhefti Skírnis.
Í greininni eru rakin samskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna varðandi orustuþoturnar frá árinu 1961. Fram kemur að hugmyndir um brottflutning orustuþotnanna hafi komið fram öðru hverju af hálfu Bandaríkjamanna frá þeim tíma og að Íslendingar hafi brugðist, þá sem nú, við með því að hóta að segja varnarsamningnum upp. Hótanir Davíðs Oddssonar í þessum efnum hafi því verið í samræmi við fyrri áherslur leiðtoga Sjálfstæðisflokksins þótt hann hafi gengið mun lengra en þeir.
Valur vísar til bréfs Davíðs til George Bush, Bandaríkjaforseta, í júní 2003, og segir hann hafa hótað með beinum hætti að segja upp varnarsamningnum með tilvísun til 7. gr. hans og hamrað á því að samningurinn væri gagnkvæmur.
"Í ljósi yfirlýsinga Davíðs var vonlaust fyrir Bandaríkjastjórn að ganga að varnarsamningnum sem gefnum; Davíð hafði eytt svo miklum pólitískum kröftum í málið að fullyrða má að hann hefði orðið að grípa til uppsagnarákvæðis samningsins hefðu þoturnar verið kallaðar heim. Samt gerðu sumir bandarískir embættismenn því skóna síðar að Davíð hefði verið að beita blekkingum," segir meðal annars í greininni.
Davíð og Bush hittust í Hvíta húsinu í júlímánuði 2004 og fullyrt er, að því er fram kemur, að Davíð hafi fengið fyrir því persónulegar tryggingar á þeim fundi að ekki yrði gripið til einhliða ákvarðana af hálfu Bandaríkjamanna. "Það þarf því ekki að koma á óvart að Bandaríkjamenn biðu með að taka endanlega ákvörðun um að kalla þoturnar á brott þangað til hann hvarf úr stjórnmálum. Þeir vildu ekki að deilan græfi undan honum í pólitísku tilliti."