Nokkur von var á ársfundi IWC fyrir ári um að tillögur sem Daninn Henrik Fischer lagði fram á fundinum árið 2004 yrðu unnar áfram, og í það minnsta komið í ákveðinn farveg. Í tillögunum fólst að takmarkaðar hvalveiðar í atvinnuskyni yrðu leyfðar með sérstökum skilyrðum. Stefán segir þá von hafa orðið að engu á fundinum í fyrra, og þeir sem stóðu að þeirri tillögu hefðu í framhaldinu ákveðið að vinna ekki frekar að því máli.
"Þetta hefur verið stóra málið hjá okkur undanfarin ár, en það er komið í þá stöðu að við eigum engan vegin von á að það gerist eitthvað í því," segir Stefán. "Það stefnir flest í að á fundinum í ár verði helst endurtekið efni þar sem lagðar verði fram tillögur um svokölluð griðasvæði, sem er fyrirfram vitað að ekki næst tilskilinn meirihluti fyrir, enda þarf 3/4 atkvæða til að taka stórar ákvarðanir í hvalveiðiráðinu."
Stefán segir alltaf einhverjar fréttir af því fyrir fundi IWC að hvalveiðiþjóðir séu komnar í meirihluta, en þær fréttir virðist einna helst komnar frá hvalveiðiandstæðingum, og til þess gerðar að þeir geti hrósað sigri að fundi loknum yfir því að hafa getað komið í veg fyrir breytingar.
Sjálfur aðalfundurinn mun standa frá 16. til 20. júní. Vísindanefnd IWC mun funda fyrir aðalfundinn, og hefjast þeir fundir í dag, 26. maí, og standa fram til 6. júní. Á fundinum í fyrra tóku 62 þjóðir þátt, en nú eru 66 þjóðir aðilar að ráðinu, samkvæmt vef ráðsins.