Starfsfólk mötuneytis flughersins óánægt

Fimm starfsmönnum mötuneytis flughersins á varnarstöðinni í Keflavík var fyrir helgi tjáð af yfirmanni að þeir skyldu fluttir og gerðir að starfsmönnum mötuneytis sjóhersins, sem staðsett er annars staðar á herstöðinni. Óánægja ríkir meðal þeirra vegna þessa.

Áform eru um að loka mötuneyti flughersins, enda Bandaríkjaher á förum frá Íslandi, og vill varnarliðið nýta starfsfólkið til vinnu í mötuneyti sjóhersins á meðan uppsagnarfrestur þess líður.

Rekstraraðili beggja þessara mötuneyta er varnarliðið. Starfsmennirnir eru hins vegar óánægðir með þessa ráðstöfun og vilja aðeins vinna á sínum gamla vinnustað. Í ráðningarsamningi þeirra er ekki gert ráð fyrir að tilflutningur sem þessi sé mögulegur.

„Yfirmennirnir hafa sagt það berum orðum að þeir vilji flytja þær milli deilda og það er engan veginn ásættanlegt,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Þarf ekki að vinna út ráðningarsamninginn

Spurður um ástæðu flutninganna segir Kristján að varnarliðið vilji fá sem mesta nýtingu út úr starfskröftum sínum og það sé ekki nægilega mikið að gera í mötuneyti flughersins vegna breyttra aðstæðna. „Þeir eru búnir að loka búllunni þarna,“ segir Kristján.

Kristján segir það skýran rétt starfsfólksins að fá að vinna samkvæmt samningi sínum. Vilji varnarliðið segja því upp hafi það rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti og þurfi ekki að vinna út ráðningarsamninginn á öðrum vinnustað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: