Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins hefst á Saint Kitts og Nevis eyjum á föstudaginn. Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, segir að fundurinn í ár verði fyrirsjáanlega öðruvísi þar sem vitað sé að ekkert nýtt muni gerast. Umræða um endurskoðun fyrirkomulags um hvalveiðar í atvinnuskyni hafi beðið skipbrot á fundinum í fyrra og allir þátttakendur viti að engar nýjar ákvarðanir verið teknar í ár.
Þeir, sem gerst þekkja, telja víst að meirihluti ríkja á ársfundinum nú sé fylgjandi því að heimila hvalveiðar að nýju. Hins vegar þarf 3/4 hluta atkvæða á ársfundi til að fella gildandi hvalveiðibann úr gildi. Stefán segir þó að þótt 3/4 atkvæða þurfi til að stórar ákvarðanir verði teknar um hvalveiðar, þá geti meirihluti í hvalveiðiráðinu, ef hann næst, breytt því hvaða pólitísk skilaboð ráðið sé að samþykkja og að í sjálfu sér sé það mikilvægt að meirihluti ráðsins sé annarrar skoðunar en verið hefur.
Stefán Ásmundsson heldur til fundarins á miðvikudag en nú stendur þar yfir vinnufundur og er Ásta Einarsdóttir, varaformaður íslensku nefndarinnar, þar fyrir Íslands hönd. Á vinnufundinum eru ýmis innri mál rædd, á borð við fjármál og stjórnarhætti.
Vinnuhópur um aflífunaraðferðir hefst hins vegar í dag og segir Stefán þann hóp hingað til frekar hafa verið áróðursvettvang hvalfriðunarsinna, heldur en vettvang þar sem reynt sé að vinna að nýjum aðferðum. Ársfundur ráðsins hefst svo á föstudag og verður fundað daglega þar til á þriðjudag.
Japanar sögðust fyrr í mánuðinum vilja koma á nýjum vettvangi til umræðna um hvalveiðimál, óháðum Alþjóðhvalveiðiráðinu. Segir Stefán þjóðir sem stutt hafa hvalveiðar hafa verið í sambandi, en ekkert hafi þó verið ákveðið um að koma á formlegum vettvangi.
Japanir hafi hins vegar verið að setja niður ýmsar hugmyndir um framtíðarþróun og bætir Stefán við að menn skoði auðvitað nýjar leiðir þegar erfitt reynist að koma á eðlilegu ástandi innan ráðsins.