Gagnlegur fundur með framkvæmdastjóra NATO segir forsætisráðherra

Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, Geir H. Haarde, forsætisráðherra …
Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/RAX

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að fundur hans og Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, með Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, hafi verið ákaflega fróðlegur og gagnlegur. En meðal umræðuefna fundarins voru varnarviðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna.

Jaap de Hoop Scheffer sagði á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum að hann legði á það áherslu að íslensk og bandarísk stjórnvöld næðu sameiginlegri niðurstöðu í varnarviðræðunum, niðurstöðu, sem bæði ríkin væru sátt við.

Segir Geir að þeir Scheffer séu sammála um að það sé rétti farvegurinn að leysa þessi mál á grundvelli tvíhliða viðræðna milli Íslendinga og Bandaríkjamanna.

Næsti fundur Bandaríkjamanna og Íslendinga um varnarmálin verður haldinn 7. júlí nk. og segist Geir vonast til þess að sá fundur þoki viðræðunum í samkomulagsátt. Hann geti hins vegar ekkert sagt um hvenær niðurstaða náist í málinu. „Það liggur hins vegar í hlutarins eðli að því fyrr því betra," að sögn forsætisráðherra.

Geir segir ljóst að flugvélarnar séu að fara af Keflavíkurflugvelli en hann vilji ekki fara nánar ofan í þau mál við fréttamenn og að hann geti ekki sagt til um hvort viðræðum ljúki áður en flugvélarnar verða fluttar á brott.

Aðspurður um hvort rætt hafi verið um hvort NATO muni koma sjálft að vörnum Íslands, til að mynda með flugvélum, segir Geir að ekki sé hægt að svara á þessu stigi. „Það eru allir á því að best sé að leysa þetta mál á milli okkar og Bandaríkjamanna," segir Geir og undir þau orð tekur framkvæmdastjóri NATO.

Jaap de Hoop Scheffer segir að fundurinn með þeim Geir og Valgerði hafi verið góður og upplýsandi og hann viti að þeir Geir muni áfram vera í góðu sambandi líkt og þegar Geir var utanríkisráðherra.

Segist hann vera reiðubúinn til þess að veita Íslendingum aðstoð í varnarviðræðunum og íslensk stjórnvöld geti ávalt leitað til hans, enda sé það hlutverk hans sem framkvæmdastjóra NATO. Öll ríki Atlantshafsbandalagsins séu jafn rétthá og ekkert eitt ríki öðrum fremri. Að sögn Scheffer mun hann fylgjast áfram náið með viðræðum landanna, en tekur fram að þær séu í höndum ríkjanna tveggja. Hann hafi fulla trú á að þau muni ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir báða aðila.

mbl.is