Ályktun samþykkt um að hvalveiðibannið sé ónauðsynlegt

Joji Morishita, formaður japönsku sendinefndarinnar á ársfundi hvalveiðiráðsins.
Joji Morishita, formaður japönsku sendinefndarinnar á ársfundi hvalveiðiráðsins. AP

Þjóðir sem styðja hval­veiðar unnu sinn fyrsta sig­ur á árs­fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins í kvöld þegar samþykkt var álykt­un­ar­til­laga um að hval­veiðibannið, sem hef­ur verið í gildi í 20 ár, sé ekki leng­ur nauðsyn­legt. Álykt­un­in er ekki bind­andi en hún þykir mik­ill sig­ur fyr­ir Jap­ana og aðrar hval­veiðiþjóðir sem vilja að veiðibann­inu sé aflétt.

Álykt­un­ar­til­lag­an var lögð fram af St. Kitts og Nevis en full­trú­ar St. Lucia, St. Vincent, Grenada, Dom­inica og Antigua voru meðflutn­ings­menn. Þá skrifuðu Íslend­ing­ar, Norðmenn, Jap­an­ar og Rúss­ar einnig und­ir álykt­un­ar­til­lög­una, sem var samþykkt með 33 at­kvæðum gegn 32 en eitt ríki sat hjá.

Í álykt­un­inni seg­ir: „Hval­veiðibannið, sem aug­ljós­lega átti að vera tíma­bund­in ráðstöf­un, er ekki leng­ur nauðsyn­legt."

Flutn­ings­menn­irn­ir sögðu að álykt­un­in væri nauðsyn­leg til að neyða Alþjóðahval­veiðiráðið til að fara eft­ir stofn­sátt­mála sín­um og stjórna hval­veiðum en ekki banna þær með öllu. Sögðu þeir að nauðsyn­legt væri að leyfa hval­veiðar til að viðhalda jafn­væg­inu vist­kerfi sjáv­ar og vernda fiski­stofna. „Þetta er vist­kerfi þar sem hval­ir eru efst­ir í fæðukeðjunni," sagði Dav­en Joseph, full­trúi St. Kitts og Nevis á árs­fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins.

„Þetta er eins og að kenna spæt­um um eyðingu skóg­anna," sagði Vassili Pap­astavr­ou, líf­fræðing­ur hjá Alþjóða dýra­vernd­un­ar­sjóðnum. „Aðalástæðan er of­veiði, ekki hval­ir."

Um­hverf­is­vernd­arsinn­ar voru al­ger­lega and­víg­ir álykt­un­inni og lýstu von­brigðum eft­ir at­kvæðagreiðsluna. „Þetta er mesta áfallið sem orðið hef­ur frá því bannið tók gildi," sagði Kitty Block, lögmaður sam­tak­anna Huma­ne Society In­ternati­onal.

„Þetta er sögu­leg­ur sig­ur," sagði Glenn Inwood, talsmaður japönsku sendi­nefnd­ar­inn­ar. „Það mun ekki líða á löngu þar til bannið verður af­numið."

Að sögn AFP frétta­stof­unn­ar von­ast Jap­an­ar til að geta notað þessa álykt­un sér til fram­drátt­ar þar sem hún sýni fram á, að fleiri þjóðir vilji aflétta bann­inu en vilja viðhalda því.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina