Japanir ætla í dag að freista þess að ná yfirhöndinni í Alþjóða hvalveiðiráðinu en fundur þess stendur yfir á á Sankti Kristófer og Nevis-eyjum. Frá því að fundur hófst á föstudag hafa þrjár tillögur Japana, meðal annars um að hefja hvalveiðar á ný, verið hafnað. Meðal tillagna Japana fyrir fundinn í dag er að Alþjóða hvalveiðiráðið ávíti Grænfriðunga fyrir árekstur þeirra við japanskan hvalveiðibát í janúar.
Tillaga Japana um að leyfa íbúum japanska fiskibæjarins Taiji að veiða hrefnu í atvinnuskyni var felld í gærkvöldi en einungis með eins atkvæðis mun, 31:30. Einfaldur meirihluti hefi þó ekki nægt til þess að tillagan yrði samþykkt heldur hefði þurft 75% atkvæða á fundinum.
Fjögur ríki, sem búist hafði verið við að greiddu atkvæði með Japönum, sátu þess í stað hjá. Þetta voru Kína, Suður-Kórea, Salomoneyjar og Kiribati. Joji Morishita, formaður japönsku sendinefndarinnar, fór ekkert leynt með óánægju sína. „Það er gott að þetta var ekki leynileg atkvæðagreiðsla. Japan man eftir því hvaða ríki studdu þessa tillögu og hvaða ríki sögðu nei."
Japanar lögðu til á föstudag að atkvæðagreiðslur á ársfundinum yrðu leynilegar en sú tillaga var felld, 33:30.
Eftir að tillagan um strandveiðarnar í Taiji var felld drógu Japanar aðra tillögu til baka, um að leyfðar yrðu frumbyggjaveiðar á 10 skorureyðum árlega til ársins 2010.
Fulltrúar þeirra þjóða, sem helst beita sér gegn hvalveiðum, gagnrýndu Japana harðlega fyrir tilraunir þeirra til að fá atvinnuveiðar á hvölum leyfðar að nýju. „Ég skil þetta ekki," sagði Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands. „Við erum bandamenn Japana á nánast öllum öðrum sviðum. Og ég skil hreinlega ekki hvers vegna Japan, Noregur og Ísland halda áfram að reyna að fá banninu við atvinnuhvalveiðum aflétt. Þetta stórskaðar orðstír þeirra á alþjóðavettvangi. Hvalkjötið hleðst upp í frystigeymslunum því þeir geta ekki selt það. Ég held að það sé aðeins einhver menningarleg þrjóska, sem gerir það að verjum að þeir halda áfram að reyna."
Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, sagði við fjölmiðla að átökin í hvalveiðiráðinu virðist nú orðið snúast um dýravernd en ekki umhverfisvernd. „Umhverfisverndarsinnar myndu ekki vilja að dýrategundir, sem ekki eru í neinni hættu, séu verndaðar og þetta er því farið að snúast um baráttu dýraverndunarsinna," sagði hann við AFP fréttastofuna.