Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra ræddi símleiðis við starfssystur sína í Bandaríkjunum, Condoleezzu Rice, í dag. Rice hafði samband við Valgerði upp úr hádeginu í dag og áttu þær stutt samtal. Rice óskaði Valgerði til hamingju með að vera orðin utanríkisráðherra og fullvissaði jafnframt Valgerði um að Bandaríkin muni áfram leggja áherslu á varnarsamninginn og varnir Íslands.
„Hún hringdi í mig fyrst og fremst til þess að óska mér til hamingju með starf utanríkisráðherra. Svo minntist hún á það að hún vissi að hér hefði orðið miklar framfarir í íslensku efnahagslífi. Það hefði í raun tekið stakkaskiptum á undanförnum árum, og að ég hefði átt hlut að máli,“ segir Valgerður.
Valgerður segist hafa vikið að varnarviðræðunum í samtalinu við Rice. „Hún fullvissaði mig um, eins og bandarísk stjórnvöld hafa gert áður, að Bandaríkin muni leggja áfram áherslu á varnarsamningin og varnir Íslands,“ segir Valgerður og bætir því við að þessi afstaða Rice hafi ekki komið henni á óvart.
Valgerður segir að þær hafi ekki rætt nánar um varnarmálin utan þess að hún hafi minnst á það að næsti fundur í varnarviðræðunum verður 7. júlí nk., og sagði Valgerður að hún vonist til þess að þar geti menn tekið skref fram á við. „Hún tók undir það,“ sagði Valgerður varðandi viðbrögð Rice.
Aðspurð segir Valgerður að Rice muni ekki koma með beinum hætti að varnarviðræðunum. Þær verði áfram í höndum þeirra samninganefnda sem hafa hist.
Valgerður vék að því að hún og Rice myndu hittast á ráðherrafundi NATO í í Ríga í Lettlandi í haust. „Ég nefndi það líka að hún væri mjög velkomin til Íslands og hún tók því vel. Hún sagðist hafa áhuga á því að koma til Íslands, og sagði jafnframt að ég væri velkomin til Bandaríkjanna,“ sagði Valgerður og bætir því við að þetta hafi verið mjög þægilegt spjall.
„Mér þótti mjög vænt um það að hún skyldi hringja. Ég tel að það sé ekki mjög algengt að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna séu að hringja í íslenska ráðamenn,“ segir Valgerður og bætir því við að það gæti haft eitthvað með það að gera að hún væri kona.