Eignir varnarliðsins til sölu

mbl.is/Jim Smart

Húsgögn, tölvur, verkfæraskápar, skrifborð, skrifstofuvörur og bílar varnarliðsins eru á meðal þess sem kaupþyrstir Íslendingar geta fest kaup á í gamla Blómavalshúsinu í Sigtúni í sumar og fram í nóvember en þar verða eignir varnarliðsins boðnar til sölu.

Það er Geymslusvæðið ehf. sem sér um að selja vörurnar og lofar Ástvaldur Óskarsson, framkvæmdastjóri Geymslusvæðisins, viðskiptavinum hagstæðu verði.

Salan hefst á laugardaginn klukkan 10 og hefur Ástvaldur þegar sankað að sér 20 gámum frá varnarliðinu sem er í óða önn að pakka saman og undirbúa brottför frá Íslandi.

Ástvaldur segir að unnið sé hörðum höndum að því að verðmerkja vörurnar en hann mun fá gáma til viðbótar frá varnarliðinu á tveggja vikna fresti í sumar þangað til liðið er alfarið.

"Fólk getur gert reyfarakaup," segir Ástvaldur og tekur sem dæmi að nýlegur skrifborðsstóll sem ekkert sjái á, sem myndi kosta 70 þúsund úti í búð verði til sölu á hálfvirði.

Opið verður daglega fram í nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: