Geir H. Haarde forsætisráðherra segir góðan skrið á varnarviðræðum milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda, og að vonir standi til þess að viðræðum ljúki með samkomulagi fyrir lok september. Fundi samninganefndanna á föstudag lauk án þess að niðurstaða næðist.
„Þessar viðræður gengu út af fyrir sig ágætlega, en þetta er fjölþætt mál og mörg atriði sem þarf að ræða. Það er ekki komin niðurstaða um neitt í sjálfu sér, en menn munu halda áfram að vinna í þessu á vegum beggja samninganefnda þar til næsti fundur verður haldinn, eftir um það bil þrjár vikur eða svo. Menn tala saman í góðum anda,“ segir Geir.
„Ég held að það sé fullur vilji af beggja hálfu til að tala um öll atriði málsins og leggja sig fram við að finna viðunandi niðurstöður,“ sagði Geir.
Spurður hvenær búast megi við að lending náist í viðræðunum sagði hann: „Það fer eftir því hvernig gengur, en við höfum gert okkur vonir um að það mætti ljúka þessu fyrir septemberlok.“
Geir vildi ekki tjá sig efnislega um einstök atriði sem rædd hafa verið á fundum hingað til, og vildi ekki segja neitt um hvort Bandaríkjamenn hefðu lagt fram einhvers konar áætlun um varnir Íslands.
Óljóst hvað verður um tækjabúnað Talsverð umræða hefur verið um snjóruðningstæki og útbúnað slökkviliðs Keflavíkurflugvallar, enda tækjabúnaðurinn allur í eigu bandarískra stjórnvalda. Geir segir málið margþætt og eitt af því sem þurfi að semja um sé viðskilnaðurinn í Keflavík, þar á meðal yfirtaka á búnaði sem notaður er til að reka völlinn. Hann vildi þó ekki fara nánar út í málið, né segja neitt um hverjar áherslur íslenskra stjórnvalda eru varðandi tækjabúnaðinn.
Spurður hvort þessi tækjabúnaður sé hluti af því sem flytja á af landi brott fyrir lok september sagðist Geir ekki geta fullyrt um það.