Rætt var um einstök atriði sem varða yfirtöku Íslendinga á rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar, og hvað verði um mannvirki á vellinum, í fyrsta skipti á þriðja fundi íslenskra og bandarískra stjórnvalda um varnarsamstarf ríkjanna sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu í gær.
Jafnframt var rætt um hvernig vörnum landsins verði fyrirkomið eftir brotthvarf varnarliðsins og með hvaða hætti verði gengið frá samkomulagi um þær. Vel miðaði í viðræðunum í gær og gert er ráð fyrir að næsti samningafundur fari fram í byrjun ágúst.
Alls voru 18 fulltrúar í bandarísku sendinefndinni, en fyrir henni fór Thomas Hall, einn af aðstoðarvarnarmálaráðherrum Bandaríkjanna. Íslensku sendinefndina leiddi sem fyrr Albert Jónsson sendiherra. Fundurinn stóð frá kl. 9 í gærmorgun til kl. 18, en ekki þótti ástæða til að halda fundi áfram í dag, eins og jafnvel hafði verið talið.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra og fulltrúi í íslensku sendinefndinni, sagði að fundi loknum að á honum hefði verið farið yfir allt sviðið, en hún vildi ekki tjá sig neitt um hvort bandaríska sendinefndin hefði á fundinum lagt fram einhvers konar áætlun um varnir landsins.