Styrking mannöryggis var yfirskrift ársfundar ÖSE-þingsins sem haldinn var í Brussel 3.-7. júlí. Þrír Alþingismenn tóku þátt í þinginu og vöktu þar athygli á málefnum sem verið hafa í umræðunni á Íslandi, m.a. brotthvarfi varnarliðslins og mansali, að því er segir í tilkynningu frá Alþingi.
Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður Íslandsdeildar ÖSE-þingsins, vakti athygli á einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á þingfundi og í starfi nefndar þingsins um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál. Dagný lagði áherslu á að með hlýnun jarðar mætti búast við sífellt aukinni siglingaumferð um Norðurhöf, m.a. í tengslum við aukna olíu- og gasvinnslu á Norðurskautssvæðinu. Dagný sagðist telja að fyrirvarinn sem Bandaríkin gáfu íslenskum stjórnvöldum hafi verið of stuttur og að ákvörðun Bandaríkjastjórnar, sérstaklega varðandi brotthvarf þyrlubjörgunarsveitarinnar, dragi úr öryggi sjófarenda á Norður-Atlantshafi.
Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á hugmyndum um stofnun þjóðaröryggisdeildar hjá embætti ríkislögreglustjóra í umræðum um þinglegt eftirlit með lögreglu og leyniþjóstum í starfi nefndar ÖSE-þingsins um lýðræði og mannréttindamál. Í kjölfar umræðu nefndarinnar var samþykkt ályktun sem hvetur aðildarríki ÖSE til að tryggja þinglegt eftirlit á þessu sviði. Jóhanna fjallaði einnig um mansal og vændi í almennum þingumræðum. Hún upplýsti þingheim um nýlega ályktun jafnaðarmanna í Norðurlandaráði sem hvetur til samhæfðrar verkefnaáætlunar gegn vændi og hvatti til þess kaup á vændi yrðu gerð ólögleg í aðildarríkjum ÖSE.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður Íslandsdeildar ÖSE-þingsins, lagði áherslu á að ÖSE-þingið sinni eftirlitshlutverki sínu með Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu á skilvirkan hátt í fyrirspurnartíma með framkvæmdastjóra ÖSE og í almennum þingumræðum.