"VIÐ HEFÐUM viljað klára og vera búnir með þetta mál en það væri í raun og veru óeðlileg bjartsýni," segir Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja (HS), eftir viðræður við fulltrúa bandarískra stjórnvalda um kröfur hitaveitunnar til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Engin niðurstaða kom fram á fundunum tveimur sem fóru fram á miðvikudag og fimmtudag. Viðræðurnar snerust aðallega um kröfugerð hitaveitunnar, t.a.m. um þær fjárfestingar sem HS réðst í til að uppfylla samningsskyldur sínar við varnarliðið, sem skila litlu eftir brotthvarf hersins.
Júlíus segist ekki geta gefið upp hversu langt sé í samkomulag milli aðila en er jákvæður á að gagntilboð berist frá bandarískum yfirvöldum, jafnvel í þessum mánuði. "Þeir vita hvar við stöndum en fulltrúarnir sem við áttum viðræður við höfðu í raun ekki neitt umboð til þess að ganga til samninga. Þeir áttu frekar að "ganga í skrokk" á okkur og fá skýringar á ýmsum atriðum."