Ný varnaráætlun bandarískra stjórnvalda fyrir Ísland var rædd á fundi viðræðunefnda landanna í Bandaríkjunum í síðustu viku, segir Geir H. Haarde forsætisráðherra,en hann vildi ekki skýra nánar hvað í þessari áætlun fælist.
„Þetta mál er í viðræðuferli milli Íslands og Bandaríkjanna [...] og síðast voru fundir í Bandaríkjunum í síðustu viku og þar var farið yfir alla þætti þessa máls. Þar með talið nýja varnaráætlun fyrir landið sem legið hefur fyrir af hálfu Bandaríkjamanna núna í dálítinn tíma, en einnig önnur atriði, meðal annars hluti sem lúta að viðskilnaðinum á Keflavíkurflugvelli," sagði Geir við fjölmiðla að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
„Þessu máli er auðvitað ekki lokið, það er enn þá verið að tala um ýmsa þætti þess og því verður haldið áfram í þessum mánuði. Vonandi tekst að ljúka þessu í heild sinni fyrir lok september, ef öll atriði ganga upp," sagði Geir.
Hann sagði það liggja í hlutarins eðli að varnaráætlunin sem Bandaríkjamenn hafa lagt fram verði ekki gerð opinber en ef sátt náist um málið í heild sinni þýði það væntanlega að sátt sé um varnaráætlunina.
Geir segir þetta einfaldlega rangt hjá Össuri. „Ég verð nú að segja eins og er að ég kannast ekki við þessar upplýsingar sem hann reiðir fram, eða þá fjárhæð sem hann er að tala um. Þetta kemur algerlega flatt upp á okkur hér sem berum ábyrgð á þessum málum. [...] Össur er nú ágætur vinur minn og ég vil ekki hallmæla honum en ég tel að þetta sé rangt."