Þrjár orrustuþotur af gerðinni F15 flugu vestur um haf frá varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun og er því engin orrustuþota á vellinum lengur. Þotur á vegum varnarliðsins hafa verið hér á landi allt frá árinu 1953 og því er um ákveðin tímamót að ræða að sögn Friðþórs Eydal, upplýsingafulltrúa varnarliðsins. F15-þoturnar þrjár hafa aðeins verið hér á landi í nokkrar vikur en þotur af þessari gerð hafa verið hér um árabil.
„Allar götur frá árinu 1994 hafa flugsveitir í bandaríska flughernum skipst á um að senda hingað fjórar til sex þotur til sex til tólf vikna dvalar," segir Friðþór. Á hverjum tíma hafa því alltaf einhverjar þotur verið staðsettar hér. Flestar voru þær um 25 talsins á sjötta áratugnum, en þær voru ekki sambærilegar að gæðum og þær sem hafa verið hér undanfarin misseri. F15-vélar voru flestar 18 á Keflavíkurvelli, þ.e. heil flugsveit, en það var á árunum 1985-1994.
Tvær björgunarþyrlur varnarliðsins verða áfram á Íslandi fram í næsta mánuð.