Síðustu herþoturnar farnar frá Íslandi

Ljósmynd/Baldur Sveinsson

Þrjár orrustuþotur af gerðinni F15 flugu vestur um haf frá varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun og er því engin orrustuþota á vellinum lengur. Þotur á vegum varnarliðsins hafa verið hér á landi allt frá árinu 1953 og því er um ákveðin tímamót að ræða að sögn Friðþórs Eydal, upplýsingafulltrúa varnarliðsins. F15-þoturnar þrjár hafa aðeins verið hér á landi í nokkrar vikur en þotur af þessari gerð hafa verið hér um árabil.

„Allar götur frá árinu 1994 hafa flugsveitir í bandaríska flughernum skipst á um að senda hingað fjórar til sex þotur til sex til tólf vikna dvalar," segir Friðþór. Á hverjum tíma hafa því alltaf einhverjar þotur verið staðsettar hér. Flestar voru þær um 25 talsins á sjötta áratugnum, en þær voru ekki sambærilegar að gæðum og þær sem hafa verið hér undanfarin misseri. F15-vélar voru flestar 18 á Keflavíkurvelli, þ.e. heil flugsveit, en það var á árunum 1985-1994.

Tvær björgunarþyrlur varnarliðsins verða áfram á Íslandi fram í næsta mánuð.

Söguleg kveðjustund

F15-þotan SL-038 var síðasta orrustuþota Bandaríkjamanna til að hverfa af landi brott í gærmorgun, en vélin á sér merka sögu. Þotan kom fyrst til landsins árið 1985 þegar 57. sveit flughersins fékk F15-orrustuþotur til afnota. Þotan var á Íslandi þar til ákveðið var að leggja niður fastasveit hér á landi og 57. flugsveitin var færð um set. Þegar sveitin kvaddi vildi svo til að vélin var sú síðasta til að yfirgefa landið. Allar götur síðan hafa flugsveitir Bandaríkjamanna skipst á að koma til landsins og dvalið hér um nokkurt skeið. Algjör tilviljun réð því að SL-038 kom til landsins á ný fyrir sex vikum á vegum Air National Guard frá St. Lewis í Missouri. Þegar upp komst um tengsl vélarinnar við Ísland þótti ekki annað fært en að láta hana vera síðustu orrustuþotuna til að hverfa af landi brott og þar með eiga síðasta orðið við sögulega kveðjustund.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: