eftir Brján Jónasson
brjann@mbl.is
BJÖRGUNARÞYRLUR bandaríska varnarliðsins fljúga af landi brott hinn 15. september, en herinn hafnaði beiðni Landhelgisgæslu Íslands (LHG) um að þyrlurnar yrðu til taks hér á landi til 1. október, þegar fyrsta leiguþyrla gæslunnar kemur hingað til lands.
"Við óskuðum eftir því að þyrlurnar yrðu hér til 1. október, og reiknuðum með að þeir [varnarliðið] samþykktu það, en við fengum upplýsingar um það síðastliðinn mánudag að þeir myndu ljúka sinni vakt klukkan 16 föstudaginn 15. september," segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG.
"Þetta á ekki að skapa nein vandræði. Við fáum fyrstu leiguþyrluna - sem er sambærileg við stærri þyrluna okkar - hinn 1. október, og við erum búnir að skipuleggja okkar starfsemi miðað við að báðar okkar vélar verði í lagi þangað til," segir Georg.
Hann óttast ekki að alvarlegt ástand verði ef önnur hvor þyrla gæslunnar bilar áður en leiguþyrlan kemur. Ef óvænt ástand komi upp megi reikna með aðstoð frá Norðmönnum til að brúa bilið. Um það sé munnlegt samkomulag.