eftir Brján Jónasson
brjann@mbl.is
MEÐ BROTTHVARFI varnarliðsins frá landinu og lokun stjórnstöðvar sem fylgdist með óþekktum flugvélum í lofthelgi Íslands hefur opnast ný leið til að smygla fíkniefnum til landsins. Ekkert eftirlit er nú haft með því hvort hingað koma litlar flugvélar sem geta lent á afskekktum stöðum og affermt eiturlyf án þess að nokkur verði þess var.
Grundvallarmunur er á þeim ratsjárkerfum sem varnarliðið notaði, og því kerfi sem Flugmálastjórn nýtir sér við eftirlit með flugumferð. Varnarliðið notaði svokallaða frumratsjá, sem sendir út merki sem nemur allar flugvélar sem fara yfir landið.
Flugmálastjórn notar annað kerfi, sem treystir á upplýsingar frá flugvélunum sjálfum til að staðsetja þær, en hægt er að slökkva á búnaðinum sem sendir gögn til flugumferðarstjóra og veldur það því að flugvélin sést ekki á ratsjá hér á landi.
Þetta staðfestir Þorgeir Pálsson flugmálastjóri. Hann bendir þó á að ekki sé vitað til þess að neinar óþekktar flugvélar hafi verið hér á sveimi áður en varnarliðið hætti eftirliti sínu. Þetta sé þó þekkt leið til að smygla fíkniefnum, yfirvöld á Flórída í Bandaríkjunum hafi til að mynda komið upp þéttu neti ratsjáa til að reyna að stemma stigu við smygli á fíkniefnum með litlum flugvélum.
"Það hefur verið talað um þetta sem möguleika, en þetta hefur ekki verið skoðað eða rætt sérstaklega. En þegar heildarþarfir fyrir varnir verða skoðaðar kann þetta að vera eitt af þeim mörgu atriðum sem þarf að skoða," segir Grétar.
Sérfræðingur sem rætt er við í Morgunblaðinu í dag bendir á að ekki væri nægjanlegt að láta flugstjórnarmiðstöð Flugmálastjórnar fylgjast með óþekktum flugvélum. Það mundi lítið gagn gera nema hægt væri að bregðast við á einhvern hátt. Nú þegar orrustuþotur séu ekki lengur staðsettar hér á landi þyrfti að beita öðrum aðferðum, svo sem að hafa hraðskreiða flugvél til taks til að senda tollverði til móts við óþekktar flugvélar sem grunur leiki á að beri smyglvarning.
» Ekki er ólöglegt að slökkva á ratsjársvara, sem gefur flugmálayfirvöldum upplýsingar um staðsetningu flugvélar. Þessi tæki eru þó nær undantekningarlaust höfð í gangi.
» Flugmálastjórn fær gögn úr frumratsjá, sem nota má til að finna óþekktar flugvélar, en vinnur ekki úr þeim, enda var það á hendi varnarliðsins þar til stjórnstöð þess hætti starfsemi í lok maí sl.