Herinn tekur slökkvibíla og snjótæki

Rekur lestina - Sean Lepera verður síðastur til að yfirgefa …
Rekur lestina - Sean Lepera verður síðastur til að yfirgefa aðalstöðvar varnarliðsins. mbl.is/Sverrir

Brotthvarf Varnarliðsins á Miðnesheiði færist sífellt nær og nú er svo komið að innan tíu daga verður 55 ára sögu bandaríska hersins hér á landi lokið. Viðræður milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda hafa staðið yfir frá því í mars og Víkurfréttir hafa heimildir fyrir því að samningur liggi þegar fyrir og hafi gert það um nokkurt skeið, einungis þurfi að staðfesta hann með undirritun.

Heimildarmenn Víkurfrétta, sem vildu ekki koma fram undir nafni, segja að samkvæmt samkomulaginu skili bandarísk stjórnvöld öllu landsvæði og byggingum sem hafa verið innan marka varnarsvæðis að undanskildum byggingum fjarskiptamiðstöðvarinnar við Grindavík sem mun áfram vera rekin af Bandaríkjamönnum. Ísland mun þó áfram starfa með Bandaríkjunum á vettvangi NATO og mun veita aðstöðu á þeim forsendum ef þess gerist þörf.

Eitt stærsta málið sem brunnið hefur á þeim sem fylgst hafa með viðræðunum er hvað muni verða um tæki og tól á varnarsvæðinu sem eru í eigu Bandaríkjahers en gegna mikilvægu hlutverki fyrir Íslendinga, sérstaklega varðandi rekstur alþjóðaflugvallarins.

Snjóruðningstæki, tækjabúnaður Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli og ýmiskonar fjarskiptabúnaður er meðal þess sem er nauðsynlegt til að rekstur flugvallarins fari ekki í uppnám.

Heimildir Víkurfrétta staðhæfa að allur nauðsynlegur búnaður verði áfram hér á landi fyrst um sinn. Íslensk stjórnvöld munu samkvæmt því leigja búnaðinn þar til þau hafa sjálf komið sér upp slíku og er talið að tíminn sem um ræðir sé um það bil ár. Leigugjaldið sé óverulegt miðað við mikilvægi og verðmæti búnaðarins. Ástæða þess að íslensk stjórnvöld festa ekki kaup á þeim búnaði sem þegar er hér á landi er að þar sem hann er í eigu hersins er um að ræða „hergögn“ sem bandarísk lög banna að séu látin af hendi.

Sjá frétt Víkurfrétta

mbl.is