Nánara samstarf við Kanada, Bretland og Bandaríkin

Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og Björn Bjarnason, ásamt Condoleezzu …
Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og Björn Bjarnason, ásamt Condoleezzu Rice mbl.is/Skapti

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir það hafa verið rætt í gær að Íslendingar tengdust hugsanlega stjórnstöð bandarísku strandgæslunnar í Boston og kæmu þar með að mun meira leyti en áður að þríhliða samstarfi Bandaríkjamanna, Kanadamanna og Breta. Björn fundaði með yfirmanni strandgæslunnar, Thad Allen, í Washington í gær.

Björn sagði samstarf Landhelgisgæslunnar og bandarísku strandgæslunnar hafa verið gott í gegnum árin og svo yrði áfram, en málin væru nú komin í það horf að pólitískur grundvöllur væri fyrir því að útfæra samstarfið með öðrum hætti eftir að varnarliðið hvarf á braut. "Við ræddum hvernig þessu samstarfi yrði best háttað og það eru ýmsar leiðir til að útfæra það. Það var talað um að við myndum hugsanlega tengjast miðstöð strandgæslunnar í Boston, sem hefur með Norður-Atlantshafið að gera, í samvinnu við Kanadamenn og Breta, og að þríhliða samningur á milli þessara ríkja yrði hugsanlega útvíkkaður þannig að Íslendingar kæmu inn í það samstarf."

Björn sagði bandarísku strandgæsluna afar öfluga en Íslendingar hefðu líka ýmislegt fram að færa sem gagnaðist öðrum þjóðum, eftirlitskerfi og annað slíkt. "Þetta er spurning um heildstæðar myndir í öryggis-, leitar- og björgunarmálum á Norður-Atlantshafinu þar sem við erum virkir þátttakendur með þessum þjóðum, en komum nú inn í þetta á annan hátt en áður. Bandaríkin hafa eðlilega verið mest í sambandi við Varnarliðið til þessa en nú verða bein samskipti við okkar stofnanir mikilvægari en áður, við Landhelgisgæsluna og ráðuneytið."

Með Birni í för í Washington eru m.a. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: