Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segist hafa viljað sjá frekari skuldbindingu Bandaríkjamanna, t.d. hvað varðar viðveru herliðs og hreinsun svæða í nýjum samningi milli þjóðanna þá telur hún að samningsmarkmið Íslendinga hafi náðst og meginskylda stjórnvalda gagnvart þjóð sinni sé uppfyllt, þ.e. að vernda land og þjóð gegn utanaðkomandi vá. Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu ráðherrans.
„En þótt friðsælt sé á Norður-Atlantshafi nú um stundir er fyrirfram ekki hægt að útiloka að breytingar verði þar á. Þótt okkur finnist við örugg og úr alfaraleið þurfum við, rétt eins og aðrar þjóðir, að standa vel á verði gagnvart alþjóðlegum hryðjuverkahópum, sem engu eira og ekkert er heilagt. Fyrir skömmu komu til dæmis bresk og bandarísk yfirvöld í veg fyrir meiriháttar tilraunir til hryðjuverka sem beindust gegn farþegaþotum sem fljúga áttu yfir Atlantshafið. Þá liggur fyrir að flug- og skipaumferð um Norður-Atlantshaf mun aukast til mikilla muna á næstu árum, meðal annars vegna olíu- og gasvinnslu og flutninga. Varnir gegn hefðbundnum ógnum þurfa einnig að vera til staðar eins og varnarviðbúnaður nágrannaríkja okkar ber vitni um. Við þurfum því að miða öryggi og varnir Íslands við þær ógnir sem að okkur kunna að steðja og stöðu okkar í samfélagi þjóðanna," samkvæmt pistli Valgerðar.
Segir hún að sem Evrópuþjóð hljótum við jafnframt að fylgjast grannt með þróun öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins, sem þróast hefur hratt undanfarin ár.
„Þannig var samevrópsk öryggismálastefna samþykkt fyrir hartnær þremur árum og stjórnmála- og öryggismálanefnd, sem og hermálanefnd og hermálastarfslið, eru nú starfandi innan sambandsins. Hernaðarbolmagn er að aukast og sett hefur verið saman 60 þúsund manna viðbragðslið. Evrópsk varnarmálastofnun var sett á fót árið 2004 og er ætlað að stuðla að samhæfingu og samvinnu á hernaðarsviðinu. Þá var samstöðuákvæði aðildarríkja ESB samþykkt eftir hryðjuverkaárásirnar í Madrid árið 2004 sem gerir ráð fyrir að aðildarríkin bregðist sameiginlega við ef eitt þeirra verði fyrir hryðjuverkaárás. Þó öryggis- og varnarmálastefna ESB sé ennþá ófullburða er hún í örri þróun og til lengri tíma litið skyldi alls ekki útiloka að Ísland geti leitað samstarfs við ESB á sviði öryggismála.
Önnur hlið á Evrópusamstarfinu snýr að Schengen, samstarfi sem við höfum notið góðs af og munum styrkja enn frekar. Þá hljótum við að líta til okkar næstu nágranna, líkt og Noregs, Danmerkur, Færeyja, Bretlands og Kanada, um samstarf á sviði leitar- og björgunarmála.
Síðast en ekki síst hljótum við að líta okkur nær og taka aukna ábyrgð á eigin öryggi og vörnum. Samingaferli það sem nú hefur verið leitt farsællega til lykta, en var okkur ekki auðvelt, þarf að verða okkur áminning um nauðsyn þess að standa vel á verði um öryggishagsmuni okkar og við þurfum að efla okkar eigin viðbúnað og þekkingu þannig að við getum brugðist við þeim öru breytingum, sem eru að verða á umhverfi okkar í öryggis- og varnarmálum. Í því ljósi ber að líta á ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að stórefla Landhelgisgæslu Íslands og lögreglu, að setja á fót miðstöð um öryggismál innanlands og endurskoða lög um almannavarnir. Í því ljósi ber einnig að líta fyrirhugaðan samstarfsvettvang fulltrúa stjórnmálaflokkanna til að fjalla um öryggis- og varnarmál."