Áætlað er að kostnaður Hafrannsóknastofnunar vegna hrefnuveiða á þessu ári nemi samtals um 78,9 milljónum króna. Þetta kemur fram í skriflegu svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar, Samfylkingu.
Af þessum 78,9 milljónum eru 35 milljónir vegna sjálfra hrefnurannsóknanna og 43,9 milljónir vegna samnings um veiðarnar við Félag hrefnuveiðimanna. Sextíu dýr voru veidd á þessu ári.
Í svarinu kemur einnig fram að kostnaður Hafrannsóknastofnunar vegna hrefnuveiða á árinu 2003 hafi numið um 29,2 milljónum. Þá voru veidd 36 dýr. Kostnaðurinn nam 56,9 milljónum árið 2004, þegar 25 dýr voru veidd, og 55,6 milljónum árið 2005, þegar 39 dýr voru veidd.
Sjávarútvegsráðuneytið gerði árið 2003 samning við Félag hrefnuveiðimanna um veiðar á hrefnu í vísindaskyni. Frá árinu 2004 hefur Hafrannsóknastofnunin hins vegar gert slíka samninga.