Ýmsar tillögur meirihluta fjárlaganefndar um aukin útgjöld á fjárlögum næsta árs, sem birtar voru í dag, tengjast ákvörðun Bandaríkjamanna um að hætta starfsemi í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Er m.a. lagt til að 280 milljónum króna verði varið til umsjónar fyrrum varnarsvæðis en sá kostnaður felst m.a. í umsýslu, viðhaldi, öryggisgæslu, umhirðu og öðrum húsnæðiskostnaði.
Stofnað hefur verið þróunarfélag sem mun halda utan um rekstur svæðisins. Er fyrrgreindri fjárveitingu einnig ætlað að standa undir kostnaði við þróun og umbreytingu á svæðinu. Fjárveitingin verður lækkuð þegar fasteignir á svæðinu verða settar í sjálfbær borgaraleg not.
Þá er lagt til, að veittar verði 230 milljónir króna til að standa undir auknum rekstrarkostnaði vegna eflingar þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands á næsta ári. Í fjárlagafrumvarpinu var lögð til hækkun á grundvelli kostnaðaráætlunar síðan snemma í sumar en sú áætlun hefur nú verið endurskoðuð.
Heildarrekstrarkostnaður á næsta ári á verðlagi fjárlagafrumvarps 2007 við leigu á þyrlum, rekstrarkostnað við þær og tryggingar, fjölgun starfsmanna, þjálfun, búnaðarkaup o.fl. er áætlaður tæplega 820 milljónir króna.
Þá gerir meirihluti nefndarinnar tillögu um 16 milljóna króna framlag til samstarfsvettvangs fulltrúa stjórnmálaflokkanna þar sem fjallað verði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli, m.a. í samstarfi við sambærilega aðila í nálægum löndum.
Loks er lagt til að dómsmálaráðuneytið fái 10 milljónir króna aukalega til að fjölga starfsmönnum um einn. Segir meirihluti fjárlaganefndar, að við brottför varnarliðsins taki íslensk stjórnvöld við nýjum verkefnum. Nauðsynlegt sé að bæta við starfsmanni á aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins, sem hafi sérþekkingu á sviði varnar- og öryggismála.