Bandaríska verslunarkeðjan Whole Foods Market (WFM) hefur ákveðið að hætta markaðssetningu á íslenskum vörum í verslunum sínum sökum ákvörðunar stjórnvalda að hefja að nýju hvalveiðar í atvinnuskyni. Verslunarkeðjan mun þó áfram bjóða upp á íslenskar vörur frá einstökum framleiðendum. Ákvörðunina sendi Kenneth Meyer, aðalforstjóri austurstrandardeildar, Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra bréfleiðis 22. nóvember sl.
Í bréfinu segir Meyer meðal annars mikið áhyggjuefni að ákveðið hafi verið að veiða níu langreyðar en verst þykir honum að engar ákvarðanir hafi verið teknar um frekari veiðar og verði ekki fyrr en niðurstöður úr rannsóknum á hvalkjötinu liggi fyrir. Það þykir Meyer gefa skýrt til kynna að til skoðunar sé að auka við kvótann, þ.e. ef niðurstöðurnar eru jákvæðar.
„Okkur þykir sú ákvörðun að styðja ekki alþjóðlegt bann við hvalveiðum andstæð markmiðum um að kynna landið sem sjálfbært samfélag og framsækið í umhverfismálum," segir Meyer og bætir því við að staða Íslands í hvalveiðimálum dragi úr viðskiptavild sem náðst hafi á meðal viðskiptavina WFM. Því sé ómögulegt að halda áfram markaðssetningu vörumerkisins Ísland.
„Við hyggjum að ef afstaða Íslands til hvalveiða breytist ekki muni eftirspurn eftir íslenskum vörum í verslunum okkar minnka og við verðum tilneyddir að leita eftir vörum frá öðrum löndum."
Whole Foods Market er í fremstu röð verslana sem selja lífrænar afurðir og þær sem framleiddar eru með sjálfbærum hætti. Verslanirnar eru 180 víðsvegar um Bandaríkin og stefnt er að því að fjölga þeim í þrjú hundruð fyrir árið 2010. Undanfarin ár hefur markaðssetning á íslenskum afurðum farið fram í verslunum og meðal annars verið boðið upp á lambakjöt, skyr, smjör og osta.