Dönsk stjórnvöld eru ekki líkleg til að bjóða fram viðlíka framlag til varna Íslands og Norðmenn hafa gert, í viðræðum við Íslendinga um varnar- og öryggismál sem hefjast í Kaupmannahöfn á mánudag. Danir benda hins vegar á að samstarf Danmerkur og Íslands, ekki sízt á sviði landhelgisgæzlu, sé mikið og gott og á því megi byggja. Dönsk varðskip og flugvélar séu nú þegar mikið á ferðinni við Ísland. Þetta kemur fram í grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Norðmenn hafa boðið upp á að Orion-eftirlitsflugvélar þeirra taki af og til á sig sveig til vesturs á eftirlitsferðum sínum og fylgist þannig einnig með hafsvæðinu við Ísland.
Danskir embættismenn benda hins vegar á að danskar Challenger-eftirlitsvélar fljúgi nú þegar framhjá Íslandsströndum og millilendi stundum á Íslandi. Þessar vélar fljúga t.d. 350 flugtíma á ári vegna eftirlits í grænlenzku lögsögunni einni.
„Bæði á sjó og í lofti eigum við marg oft leið framhjá Íslandi vegna verkefna okkar á Grænlandi eingöngu,“ segir Jens H. Garly, skrifstofustjóri þeirrar skrifstofu danska varnarmálaráðuneytisins sem skipuleggur aðgerðir heraflans.
„Með þessari nærveru getum við hjálpað til við umhverfiseftirlit og einnig bara með því að vera á svæðinu, geta séð hvað er að ger ast og haft eftirlit með því. Þetta er hluti af samstarfi, sem gengur vel.“