olafur@mbl.is
ÍSLAND hefur fengið aðild að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins og mun hefja greiðslur í sjóðinn í fyrsta sinn á næsta ári. Íslenzk stjórnvöld fá aðlögunartíma og munu ekki greiða fullar greiðslur í sjóðinn fyrr en árið 2016. Þá munu þær nema um 310.000 evrum á ári, eða um 30 milljónum króna.
Tvær röksemdir eru fyrir því að ganga í Mannvirkjasjóðinn og greiða til hans fé. Annars vegar eru Bandaríkin horfin með lið sitt burt frá landinu og gegna ekki lengur hlutverki "gistiríkis" gagnvart sjóðnum hvað verkefni á Íslandi varðar. Hins vegar fjármagnar sjóðurinn nú í vaxandi mæli uppbyggingu í nýjum aðildarríkjum NATO, svo og á átakasvæðum, þar sem bandalagið hefur friðargæzlulið, t.d. í Afganistan og á Balkanskaga. Ekki þykir lengur eðlilegt að Ísland skerist úr leik hvað framlög til þessara verkefna varðar.
Á næsta ári mun Ísland greiða 24.000 evrur, eða um tvær milljónir króna í sjóðinn. 2016 mun Ísland greiða fullt framlag, 0,06% af heildarframlögum í sjóðinn, sem nemur um 310.000 evrum. Næstminnsta aðildarríki NATO, Lúxemborg, greiðir 0,15% í sjóðinn.