Paul Watson, leiðtogi umhverfisverndarsamtakanna Sea Shepherd, segist ætla að nota nýtt og hraðskreitt skip til að trufla hvalveiðibáta Japana í Suðurhöfum. Segir Watson, að hann muni leggja af stað í byrjun næsta og verði í mánuð á hvalamiðunum.
„Við ráðum nú yfir skipi, sem fer jafn hratt og þeirra og það mun gera gæfumuninn í ár," hefur AP fréttastofan eftir Watson, sem vildi að öðru leyti ekki lýsa skipinu.
Watson sagðist vona að hann gæti lagt af stað um áramótin frá Hobart í Tasmaníu á skipi sínu Farley Mowat en það skip var notað til að sigla á japanskan hvalveiðibát á síðustu vertíð. Segist Watson ætla að hitta nýja skipið á Rosshafi þar sem búist er við að japanski flotinn sé á veiðum.
Sea Shepherd hefur sætt gagnrýni, m.a. frá öðrum umhverfissamtökum, fyrir að beita aðferðum, svo sem ásiglingum, sem setja mannlíf í hættu. Útsendari Sea Shepherd sökkti m.a. íslenskum hvalveiðibátum í Reykjavíkurhöfn fyrir tveimur áratugum.