Telja sig vera betur setta án varnarliðsins

"ÞEGAR við erum búnir að klára alla okkar þjálfun og fá allan okkar búnað erum við betur settir en áður þar sem við höfum alltaf þann möguleika að senda tvær þyrlur frá okkur með fólki sem þekkir staðhætti," segir Auðunn F. Kristinsson, yfirstýrimaður og sigmaður hjá Landhelgisgæslu Íslands, um muninn á starfsemi Gæslunnar fyrir og eftir brottför varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Umsvif flugdeildar Gæslunnar hafa aukist gríðarlega á síðari hluta ársins og afar viðburðaríkt ár nánast að baki.

Í haust fékk Gæslan stóra leiguþyrlu og á fyrstu dögum nýs árs kemur til landsins minni leiguþyrla, sambærileg að stærð og TF-SIF en að öllu betur búin. Í maí nk. er svo búist við að stór leiguþyrla taki við af þeirri sem kom í haust en hún hentar ekki nægilega vel til leitar og björgunaraðgerða.

"En hún virkar vel í ýmis önnur verkefni, til dæmis hífingar, og það er ósköp eðlilegt þar sem það tekur afar langan tíma að fá fullbúna leitar- og björgunarvél," segir Auðun sem er fullviss um að efling Gæslunnar hafi verið til þess að tryggja betur öryggi og þjónustu.

"Að undanförnu höfum við verið að nota oftar tvær þyrlur en þegar við kölluðum varnarliðið út þannig að þetta hefur bætt öryggi okkar og þjónustuna við landsmenn. Þegar búið er að þjálfa allt starfsfólkið verður þetta svo enn betra."

Nær stanslaus þjálfun hefur verið hjá starfsmönnum flugdeildarinnar og þyrlurnar mikið notaðar. Er það meðal annars vegna þess að mikið er af mannskap sem allur þarf lágmarksþjálfun og hefur orðið til þess að Gæslan hefur aukið löggæslu á sjó og hefur getað sinnt ýmsum verkefnum.

Hristir upp í | Miðopna

Í hnotskurn
» Björgunin við Sandgerði var sú fyrsta sem Björn Brekkan Björnsson tók þátt í sem flugstjóri.
» Gæslan fékk stóra leiguþyrlu í haust og í vor mun önnur hentugri leysa hana af hólmi.
» Nú eru oftar notaðar tvær þyrlur en er varnarliðið var kallað út. Hefur það orðið til að bæta öryggi og þjónustu við landsmenn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: