Japanar hafa kallað saman þriggja daga ráðstefnu aðildarþjóða Alþjóðahvalveiðiráðsins, IWC og er markmiðið m.a. talið vera að ýta undir að veiðar í atvinnuskyni verði leyfðar á ný, að sögn AP-fréttastofunnar í gær. Stefán Ásmundsson verður fulltrúi Íslands á ráðstefnunni, að sögn Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra.
Ráðstefnan hefst á þriðjudag. Öllum 72 aðildarríkjum IWC var boðið á hana en Bretar ákváðu að hunsa hana og ákváðu þá Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir að feta í fótspor þeirra. Sjávarútvegsráðherra segir það miður að þessar þjóðir skuli hafa tekið þessa afstöðu.
„Markmiðið með ráðstefnunni var að ræða aðferðir við að koma upp nýju veiðikerfi,“ sagði Einar. „Menn vildu stuðla að því að ráðið yrði aftur það sem það var upprunalega, stofnun sem fjallaði um hvalveiðar og reglur um slíkar veiðar. En Bretar hafa því miður beitt sér fyrir annarri stefnu.“
Talsmaður japanska sjávarútvegsráðuneytisins, Hideki Moronuki, segir í skeyti AP að staða IWC sé nú mjög alvarleg og frumkvæði Japana sé jafnvel úrslitatilraun til að bjarga ráðinu. „IWC gæti hrunið og það væri hörmulegt,“ sagði Moronuki. Hann sagði að búist væri við að „um helmingur eða aðeins meira en helmingur“ aðildarríkja ráðsins myndi senda fulltrúa á ráðstefnuna.
Samþykkt var á fundi IWC 1986 að stöðva veiðar í atvinnuskyni til að efla stofnana en Japanar, Norðmenn og Íslendingar telja að IWC hafi horfið frá upprunalegu viðfangsefni sínu og farið að leggja aðaláhersluna á hvalafriðun. Japönsk hvalveiðiskip stunda nú hvalveiðar í vísindaskyni við Suðurskautslandið og á Kyrrahafi norðvestan við Japan.