Hvalveiðisinnar á ráðstefnu í Japan

Jap­an­ar hafa kallað sam­an þriggja daga ráðstefnu aðild­arþjóða Alþjóðahval­veiðiráðsins, IWC og er mark­miðið m.a. talið vera að ýta und­ir að veiðar í at­vinnu­skyni verði leyfðar á ný, að sögn AP-frétta­stof­unn­ar í gær. Stefán Ásmunds­son verður full­trúi Íslands á ráðstefn­unni, að sögn Ein­ars K. Guðfinns­son­ar sjáv­ar­út­vegs­ráðherra.

Ráðstefn­an hefst á þriðju­dag. Öllum 72 aðild­ar­ríkj­um IWC var boðið á hana en Bret­ar ákváðu að hunsa hana og ákváðu þá Banda­ríkja­menn og fleiri þjóðir að feta í fót­spor þeirra. Sjáv­ar­út­vegs­ráðherra seg­ir það miður að þess­ar þjóðir skuli hafa tekið þessa af­stöðu.

„Mark­miðið með ráðstefn­unni var að ræða aðferðir við að koma upp nýju veiðikerfi,“ sagði Ein­ar. „Menn vildu stuðla að því að ráðið yrði aft­ur það sem það var upp­runa­lega, stofn­un sem fjallaði um hval­veiðar og regl­ur um slík­ar veiðar. En Bret­ar hafa því miður beitt sér fyr­ir ann­arri stefnu.“

Talsmaður jap­anska sjáv­ar­út­vegs­ráðuneyt­is­ins, Hi­deki Moronuki, seg­ir í skeyti AP að staða IWC sé nú mjög al­var­leg og frum­kvæði Jap­ana sé jafn­vel úr­slita­tilraun til að bjarga ráðinu. „IWC gæti hrunið og það væri hörmu­legt,“ sagði Moronuki. Hann sagði að bú­ist væri við að „um helm­ing­ur eða aðeins meira en helm­ing­ur“ aðild­ar­ríkja ráðsins myndi senda full­trúa á ráðstefn­una.

Samþykkt var á fundi IWC 1986 að stöðva veiðar í at­vinnu­skyni til að efla stofn­ana en Jap­an­ar, Norðmenn og Íslend­ing­ar telja að IWC hafi horfið frá upp­runa­legu viðfangs­efni sínu og farið að leggja aðaláhersl­una á hvalafriðun. Japönsk hval­veiðiskip stunda nú hval­veiðar í vís­inda­skyni við Suður­skautslandið og á Kyrra­hafi norðvest­an við Jap­an.

mbl.is