„Við erum samstíga og aðilar eru sammála um að þeir geti unnið saman og vilji vinna saman," sagði Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, eftir fundinn með norsku embættismönnunum síðdegis í gær.
Að sögn hans snúast viðræðurnar að töluverðu leyti um skilgreiningar á atriðum sem varða núverandi samstarf og að finna því ákveðinn farveg. Þau varði m.a. heræfingar, miðlun upplýsinga, samstarf við Landhelgisgæslu, þyrlukaup, samvinnu á vettvangi NATO og samvinnu og upplýsingagjöf í Mannvirkjasjóði NATO, en eins og fram hefur komið eru Íslendingar að fá aðild sjóðnum.
„Á öllum þessum sviðum eru menn sammála um að við séum að fara í rétta átt," segir Grétar Már.
Spurður hvort sú stund sé að renna upp að þjóðirnar geti sest niður og undirritað samkomulag segir Grétar Már að svo sé ekki en menn séu mjög samstíga og ákveðið vinnuferli sé framundan hjá báðum aðilum.
Það sé ekkert eitt mál sem standi út af eða ágreiningur sé um. „Þetta var mjög þægilegur fundur og menn líta hlutina sömu augum."