Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, gagnrýnir tímasetninguna á undirritun samninganna um samstarf Íslendinga við Dani og Norðmenn í öryggismálum, réttara hefði verið að bíða þar til úrslit alþingiskosninganna 12. maí nk. lægju fyrir. Guðjón er þó hlynntur norrænu varnarsamstarfi og segir flokk sinn hafa lagt fram tillögu þess efnis fyrir nokkrum árum.
„Það sem maður hefur við þetta að athuga núna er að þetta gangi fram með þessum hætti þegar ríkisstjórnin á eftir aðeins örfáa daga með það umboð sem hún hefur," segir Guðjón. „Ég gagnrýni tímasetninguna og [...] þó að þessi undirbúningsvinna hafi verið unnin [...] finnst mér ekki endilega að taka eigi af skarið, m.t.t. þess hversu stutt er í það að umboði núverandi ríkisstjórnar ljúki."
Hann telur samningana hins vegar eðlilega þróun varnarsamstarfs.
„Ég tel að það hafi verið mjög eðlilegt að leita til Norðmanna og Dana um samstarf varðandi umsýsluna og eftirlit á norðurhöfum. Samstarf sem við getum byggt á í aðstoð hverjir við aðra, þar sem Landhelgisgæsla okkar er í samstarfi við hernaðaryfirvöld þessara þjóða."
Reyndar bentum við á það í Frjálslynda flokknum verulega löngu áður en varnarliðið fór af landinu að leita ætti eftir samstarfi við norrænu þjóðirnar um eftirlit og öryggismál á norðurhöfunum."