Asíuríkið Laos hefur samþykkt að sækja um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu og segja japanskir embættismenn, að það sé gert að ósk Japana. Ársfundur hvalveiðiráðsins hefst í lok maí í Alaska en óvíst er að aðild Laos taki gildi fyrir þann fund.
AFP fréttastofan hefur eftir japönskum embættismanni, að Japan hafi óskað eftir samvinnu við Laos um að viðhalda hefðbundinni menningu, og líklega sé ástæðan fyrir umsókn Laos að hvalveiðiráðinu sú, að með því vilji Laos styrkja tengslin við Japan.
Bouasone Bouphavanh er nú í heimsókn í Japan og hefur rætt við ráðamenn um leiðir til að tryggja að japönsk fyrirtæki fjárfesti í Laos.