Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að takmarka veiðar á hrefnu meðfram norsku ströndinni við 165 dýr en það er aðeins um fimmti hluti af heildarkvótanum. Norska Fiskeribladet hefur eftir embættismanni í sjávarútvegsráðuneytinu, að þetta sé gert að kröfu vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Blaðið segir, að hrefnuveiðimenn séu ekki ánægðir með að þurfa að sækja lengra út til að veiða upp í kvóta sinn. Hefur blaðið eftir Jan Kristiansen, einum hrefnuveiðimanninum, að nú séu þeir búnir að fá nóg af afskiptasemi stjórnvalda.