Neituðu að taka þátt í atkvæðagreiðslu á ársfundi hvalveiðiráðsins

Japanskir áheyrnarfulltrúar á ársfundi hvalveiðiráðsins.
Japanskir áheyrnarfulltrúar á ársfundi hvalveiðiráðsins. AP

Á þriðja tug þjóða neitaði að taka þátt í at­kvæðagreiðslu á árs­fundi Alþjóðahval­veiðiráðsins í Anchorage í nótt og mun það vera í fyrsta skipti í sögu hval­veiðiráðsins sem það ger­ist. Verið var að greiða at­kvæði um álykt­un þar sem vís­inda­hval­veiðar Jap­ana eru for­dæmd­ar. Til­lag­an var samþykkt með 40 at­kvæðum gegn 2 en 26 ríki, þar á meðal Jap­an og Ísland, neituðu að taka þátt í at­kvæðagreiðslunni á þeirri for­sendu að til­lag­an bryti gegn regl­um ráðsins.

Til­lag­an var lögð fram af Ný­sjá­lend­ing­ing­um og studd af Banda­ríkja­mönn­um, Bret­um, Áströlum, Frökk­um og Suður-Afr­íku­mönn­um. Rúss­ar og Norðmenn greiddu at­kvæði gegn til­lög­unni en Kína sat hjá.

„Það kom greini­lega fram að tvær fylk­ing­ar sem hafa mis­mun­andi af­stöðu eru í Alþjóðahval­veiðiráðinu," sagði Chris Cart­er, um­hverf­is­ráðherra Nýja-Sjá­lands. „Það væri nógu slæmt ef Jap­an­ar væru að skutla hvali við eig­in strend­ur en þeir koma og skutla okk­ar hvali," sagði hann.

Jap­an­ar sögðu að álykt­un­in hefði verið „hat­ursálykt­un". „Það sveit andi mála­miðlana yfir vötn­un­um á þess­um fundi en and­stæðing­ar hval­veiða gátu ekki á sér setið að samþykkja hat­ursálykt­an­ir," sagði Glenn Inwood, talsmaður japönsku sendi­nefnd­ar­inn­ar.

Jap­an­ar lögðu í gær­kvöldi fram form­lega til­lögu um að Alþjóðahval­veiðiráðið aflétti hval­veiðibanni, sem verið hef­ur í gildi í rúma tvo ára­tugi. Bú­ist er við að sú til­laga verði felld í dag. Ársþingið samþykkti hins veg­ar sam­hljóða til­lögu Jap­ana um að for­dæma aðgerði Sea Shepeherd gegn japönsk­um hval­veiðiskip­um í Suður­höf­um í vet­ur.

Þá var enn frestað að af­greiða til­lögu um svo­nefnd­an frum­byggja­veiðikvóta til Græn­lend­inga, sem vildu bæta tveim­ur hnúfu­bök­um og 10 slétt­bök­um við þann kvóta, sem þeir hafa haft. Í gær­kvöldi féllu Dan­ir, sem fara með mál­efni Græn­lands á fund­in­um, frá til­lögu um hnúfu­baka­kvóta og lögðu til að beðið yrði með veiðar á slétt­bak þar til vís­inda­nefnd hval­veiðiráðsins hefði fjallað um málið. Það myndi þýða, að veiðarn­ar hæf­ust ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2009.

Eng­in til­laga var lögð fram á þing­inu um hval­veiðar Íslend­inga.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina