Hrefnuveiðibáturinn Njörður veiddi hrefnu á Faxaflóa í gærkvöldi skömmu eftir að báturinn hélt á veiðar á ný. Fram kemur á heimasíðu Félags hrefnuveiðimanna, að kjötinu af hrefnunni verði dreift í verslanir strax um helgina.
Fram kom hjá Gunnari Bergmann Jónssyni, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf., í gær að 28 dýra kvóti væri enn óveiddur á yfirstandandi fiskveiðiári. Ekki væri gert ráð fyrir að sá kvóti yrði fullnýttur heldur yrðu veidd 10-15 dýr núna og síðan 6 dýr í vísindaskyni um mánaðarmótin ágúst og september. Það muni duga markaðnum fram á næsta sumar.
Konráð Eggertsson, hvalveiðimaður á Ísafirði, segist í samtali við fréttavefinn bb.is, að hann haldi til hrefnuveiða um leið og það gefur. Segir Konráð að þrátt fyrir veðurblíðu að undanförnu hafi ekki verið veður til hvalveiða. „Það þarf eiginlega að vera algjört logn til að maður sjái eitthvað, og það spáir því ekkert næstu daga. En ég fer um leið og gefur. Við verðum að fara að veiða, það er allt kjöt búið“, segir Konráð.