Japanskir hvalveiðimenn segja að eftirspurn eftir hvalkjöti þar í landi sé mikil og birgðir litlar. Því endurspegli ákvörðun íslenskra stjórnvalda, gefa ekki út hvalveiðikvóta af markaðsástæðum, ekki ástandið á Japansmarkaði.
Þá hefur Kyodo fréttastofan eftir Glen Inwood, talsmanni japönsku sjávarspendýrastofnunarinnar, að Íslendingar eigi í viðræðum við Japana um að flytja hvalkjöt til Japans.
Chris Carter, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands, sagði í vikunni að svo virtist sem enginn markaður væri fyrir hvalkjöt og japönskum stjórnvöldum væri hollast að fara að fordæmi Íslendinga. Sagði Carter að um 40 þúsund tonn af óseldu hvalkjöti væru í Japan þrátt fyrir tilraunir til að dreifa kjötinu til skólamötuneyta og nota það í hundafóður.
Inwood segir þessar tölur úr lausu lofti gripnar. Um 4000 tonna birgir af hvalkjöti séu í landinu til að tryggja jafnt framboð og jafna verð.