Evrópusambandið hvatti Japana í gærkvöldi til að hætta við vísindaveiðar sínar á hvölum og sagði að veiðarnar ógnuðu sumum hvalastofnum í Suðurhöfum. Japanar áforma að veiða um það bil 1000 hvali í vísindaskyni í Suður-Íshafi, aðallega hrefnur en einnig hnúfubaka og langreyðar.
„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvetur Japana til að endurskoða ákvörðun sína og stöðva veiðarnar," segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni.
Þá segir í tilkynningunni, að brottför japanska hvalveiðiflotans frá Japan á sunnudag sé enn meira áhyggjuefni en ella vegna þess að til standi að veiða hnúfubaka og langreiðar, stofna sem alþjóðastofnanir telji að séu í útrýmingarhættu.
„Þess vegna er veruleg hætta á, að japanska áætlunin dragi úr möguleikum þessara tegunda til að lifa í Suðurhöfum."
Japanska sjávarútvegsráðuneytið segir, að leiðangurinn, sem nú er hafinn, sé stærsti vísindaveiðileiðangur til þessa. Nauðsynlegt sé að veiða hvali til að rannsaka mökunar- og fæðumynstur tegundanna. Gagnrýnendur segja hins vegar, að Japanar noti vísindaveiðarnar sem yfirskyn til að stunda veiðar í atvinnuskyni.
„Það er engin þörf á því, að stunda veiðar til að afla vísindalegra upplýsinga um hvali," segir í tilkynningu Evrópusambandsins. „Vísindaveiðar Japana grafa undan alþjóðlegum aðgerðum til að vernda og viðhalda hvölum."