Japönsk stjórnvöld munu ekki hætta við væntanlegar vísindahvalveiðar í Suðurhöfum þrátt fyrir þrýsting frá öðrum þjóðum. Japanar sæta nú óvenju harðri gagnrýni fyrir hvalveiðiáform vegna þess, að til stendur að veiða hnúfubak í fyrsta skipti í rúma fjóra áratugi.
„Rannsóknarveiðar Japana fara fram eftir viðræður við ýmsar þjóðir," sagði Nobutaka Machimura, ráðuneytisstjóri japanska stjórnarráðsins þegar hann var spurður um alþjóðlega andstöðu gegn veiðunum. „Við getum ekki breytt áætluninni fyrirvaralaust.
Meðal annars hafa Ástralar, Nýsjálendingar, Bandaríkjamenn og Evrópusambandið gagnrýnt veiðarnar. Ástralar hafa lengi verið helstu andstæðingar hvalveiða og Machimura sagði, að ólíklegt væri að það myndi breytast eftir stjórnarskipti þar í landi.
Hvalveiðifloti Japana fór frá Shimonoseki í suðurhluta Japans 18. nóvember áleiðis til miðanna í Suðurhöfum. Til stendur að veiða 50 hnúfubaka, 50 langreyðar og 935 hrefnur.