Stjórnarformaður Spalar segir að ef ekki sé áhugi eða sátt um að safna fjármunum til að hefja framkvæmdir við tvöföldun Hvalfjarðarganga nái það mál ekki lengra og ekki verði hugað frekar að undirbúningi framkvæmdarinnar.
Fram kemur á vef Spalar að stjórn fyrirtækisins hafi kynnt Kristjáni L. Möller samgönguráðherra þrjá kosti sem félagið og ríkisvaldið standa frammi fyrir varðandi málefni Spalar og Hvalfjarðarganga vegna uppgreiðslu skulda, gjaldskrár ganganna, hugsanlegrar komu Spalar að tvöföldun ganganna og vegna þess verkefnis ríkisins að tvöfalda veginn á Kjalarnesi.
Stjórn Spalar tekur afstöðu málsins á næstunni og það þurfa stjórnvöld sömuleiðis að gera. Þetta kom fram á aðalfundi Spalar á Akranesi í dag.
Spölur og Vegagerðin undirrituðu í janúar 2007 samkomulag um að Spölur hraðaði um 10 ár uppgjöri á 150 milljóna króna skuld við Vegagerðina og að þessum fjármunum yrði varið til undirbúnings framkvæmda við að tvöfalda þjóðveginn um Kjalarnes og gera ný göng undir Hvalfjörð. Vegagerðin leggur 100 milljónir króna til viðbótar í þessa undirbúningsvinnu á árunum 2007 og 2008. Samkomulagið var gert í ljósi þess að mjög aukin umferð kallaði á að hyggja að auknum afköstum umferðarmannvirkja á Kjalarnesi og undir Hvalfirði.
Undirbúningsvinna í fullum gangi
Fram kom á aðalfundi Spalar í dag að undirbúningsvinna væri í fullum gangi og ætla mætti að frumrannsóknum og fleiri þáttum yrði lokið í mars 2008. Þá myndi jafnframt liggja fyrir kostnaðaráætlun verkefnisins. Fjögurra manna starfshópur stjórnar undirbúningnum. Í honum sitja Gísli Gíslason stjórnarformaður og Gylfi Þórðarson framkvæmdastjóri af hálfu Spalar en Hreinn Haraldsson og Jónas Snæbjörnsson af hálfu Vegagerðarinnar. Helstu verkefnin eru til dæmis að ganga frá veglínum og skipulagi á Kjalarnesi, hyggja að nauðsynlegum landakaupum, fjalla um umhverfisáhrif og meta kostnað.
Gísli Gíslason greindi frá því í skýrslu stjórnar Spalar að hann hefði ásamt Gylfa Þórðarsyni átt fund með Kristjáni L. Möller samgönguráðherra til að greina honum frá þeim kostum sem stjórn Spalar og stjórnvöld stæðu nú frammi fyrir og taka þyrfti afstöðu til fljótlega:
Stjórnarformaður Spalar ítrekaði í máli sínu að fyrr en síðar yrði að marka stefnu í málinu og bætti síðan við orðrétt:
„Augljóst er að ef ekki er áhugi eða sátt um að safna fjármunum til að hefja framkvæmdir við tvöföldun Hvalfjarðarganga nær það mál ekki lengra og mun Spölur þá ekki huga frekar að undirbúningi þeirrar framkvæmdar. Stefna félagsins yrði þá sú að halda óbreyttu gjaldi og flýta uppgreiðslu lána. Ef óskir eru um það af hálfu ríkisins að lækka veggjaldið og halda innheimtu þess áfram til ársins 2018 myndi stjórn Spalar taka þann þátt til sérstakrar skoðunar.“
Gísli sagði að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi deildu þeirri skoðun Spalar að nauðsynlegt væri að hraða undirbúningi framkvæmda við vegabætur á Kjalarnesi og undir Hvalfirði, auk þess sem sem lagning Sundabrautar væri ,,gríðarlegt hagsmunamál höfuðborgar og landsbyggðar." Stjórnarformaðurinn sagði síðan:
„Hætt er við að jákvæð áhrif Hvalfjarðarganga muni dvína ef umferð verður það mikil um göngin að þau anna ekki umferðinni. Því er það mikið hagsmunamál íbúa og vegfarenda að tryggt verði að tvöföld Hvalfjarðargöng og vegur á Kjalarnesi verði að veruleika í náinni framtíð. Það skiptir ef til vill ekki meginmáli hvort slík framkvæmd verður með eða án aðkomu Spalar ehf. en ljóst er að komi Spölur ekki að málinu þarf að bragði fjármuni úr ríkissjóði á vegaáætlun til að koma verkefninu í framkvæmd.“