Ástralar ætla að vera í fararbroddi í alþjóðlegum mótmælaaðgerðum gegn hvalveiðum Japana. Eftirlitsskip og flugvélar munu brátt fara frá Ástralíu til að afla gagna um veiðarnar með það fyrir augum, að draga Japana fyrir dóm.
Að sögn ástralskra fjölmiðla er ríkisstjórn landsins að kanna hvort raunhæft sé að höfða mál vega vísindaveiða Japana á svæði í Suðurhöfum sem Ástralir hafa lýst sem friðað hvalasvæði.
Stephen Smith, utanríkisráðherra Ástralíu, segir að ríkisstjórnin hafi tilkynnt japanska sendiráðinu í Canberra um þessi áform áður en þau voru gerð opinber. Þá hafa Ástralar mótmælt veiðunum formlega og búist er við að fjöldi annarra ríkja geri slíkt hið sama á næstu dögum.
Japanar áforma að veiða 1050 hvali í vísindaskyni á yfirstandandi vertíð, þar af 950 hrefnur, 50 langreyðar og 50 hnúfubaka.
Til stóð að Esperanza, skip Grænfriðunga, færi frá Auckland á Nýja-Sjálandi, á hvalamiðin í dag. Þangað stefnir einnig skip Sea Shepherd samtakanna.