Móðir Britney Spears biður fólk um að biðja fyrir dóttur sinni eftir að hún var flutt á sjúkrahús á föstudaginn.
Mikið álag hefur verið á Lynne Spears að undanförnu, auk sjúkrahúsinnlagnar Britney er stutt síðan að opinbert var að 16 ára dóttir hennar, Jamie Lynn er þunguð.
„Öll fjölskyldan er þjökuð af áhyggjum. Foreldrar stelpnanna eru miður sín og enginn veit hvort þau þoli miklu meira. En þau reyna að vera eins sterk og þau geta,“ sagði fjölskylduvinur um ástandið.
Annar fjölskylduvinur, fyrrverandi danskennari Britney, Renee Donewar lét hafa eftir sér: „Ég veit ekki hvar Britney geymir hausinn á sér. Ég hélt hún hefði náð botninum en ég get ekki ímyndað mér hvað gerist næst. Hún er að grafa sína eigin gröf og alls ekki í ástandi til að umgangast börnin sín.
Britney var svo staðfastur krakki, hún vissi hvað hún vildi og var ákveðin í að fá það. Núna á hún allt og hvað gerir hún við það?“